Afstada.is
  • Forsíða
  • Um felagid
  • Blogg
  • Rannsoknir
  • Stjornsysla
  • Stefnumotun
  • FJÖLMIÐLUN
    • PODCAST
    • AFSTADA TV

Tóm tunna miðflokks

11/6/2021

Comments

 
Picture
​Hryggð mín verður meiri eftir því sem ég kynnist stjórnmálum betur. Það verður svo margt að breytast.
 
Gott er að geta rætt mál til þrautar. Um það erum við öll sammála. Alþingi hefur árum saman fallið í þá gryfju að stjórnarfrumvörp eru lögð seint fram, þau eru illa rekin og svo, þegar hillir undir sumarfrí þingmanna, þarf að semja um hver þeirra verða að lögum. 
 
Þingmenn verða að átta sig á því að frumvörpin snúast um manneskjur. Ástæða þess að ég rita þessi orð er sú að nú hefur verið til meðferðar hjá Alþingi lagafrumvarp sem ætlað er að lengja möguleika dæmdra manna til að taka út dóm í samfélagsþjónustu. Slíkt úrræði hefur verið talið nauðsynlegt hér á landi til að draga úr covid-áhrifum og biðlistum eftir fangelsisplássum og að veita fólki, sem ekki hefur alvarlegustu afbrotin á bakinu, tækifæri til að halda lífinu áfram en greiða samt skuld sína við samfélagið. Þetta er líka mjög mikilvægt úrræði í þeim tilvikum sem fólk hefur beðið árum saman eftir að afplána 13-24 mánaða dóm. Fólk sem hefur beðið í mörg ár eftir að komast í afplánun og er komin með maka, börn, íbúð og fastar tekjur. Fólk sem er orðið hæft til að taka út dóm sinn í samfélagsþjónustu en nú að öllum líkindum verður að fara í fangelsi og á að hættu að missa allt það góða sem byggt hefur verið upp á síðustu árum og batinn í mikilli hættu. Mikilvæg ástæða lagafrumvarpsins er einni sú að koma á móts við reynslulausnir þeirra sem hafa setið inni á covid tímum þar sem afplánun hefur aldrei verið þungbærari 
 
Frumvarpið um afglæpavæðingu neysluskammta er sennilega allra mikilvægasta frumvarp sem liggur fyrri á alþingi þessi misserin og það er sorglegra en tárum taki að það nái ekki í gegn.  Lítilsvirðingin er alsráðandi og með öllu óskiljanlegt að það sé til fólk sem ekki vill fræðast til að skilja þennan vanda betur. Synd og skömm. Líf fjölmarga er í hættu og fólk mun beint og óbeint deyja vegna fordóma einstakra stjórnmálamanna sem þó telja að þeir viti lausnina án þess nokkurn tímann að hafa séð vímuefni.
 
Miðflokkurinn með Sigmund Davíð í fararbroddi hefur ekki aðeins hótað málþófi heldur hefur flokkurinn haldið stöðugt málþóf undanfarna daga og tafið öll mál á dagskrá. Nokkrir þingmenn flokksins hafa lagst svo lágt að telja upp t.d. öll skátafélög landsins og öll íþróttafélög, ekki til að aðstoða þau á neinn hátt heldur eingöngu til að tefja. Flokkurinn hefur gefið út að hann sé á móti fjölda mála og ég veit fyrir víst að dagskránni var stillt upp þannig að fyrst voru sett inn mál sem þeir eru ekki á móti, svo önnur.  Það er því sorglegt að horfa upp á kjörna alþingismenn leika sér að lífi og heilsu fólks í sandkassaleik á alþingi og vera á móti aðeins til að vera á móti og til þess að fá meiri umfjöllun um sig. Það er ekki að starfa að heilindum fyrir land og þjóð.  En svo er kannski ekki málþófið sem fer mest fyrir brjóstið á mér heldur handahófskenndar lausnir og útúrsnúningar klaustursmanna.
 
Ég get ekki annað gert en að biðla til allra sem almennt hafa áhuga á landi og þjóð að kynna sér málefnin rækilega og muna þá fátæklegu hugmyndir sem Miðflokkurinn hefur í sinni smiðju. Þetta eru sömu rök og voru notuð til að réttlæta bókarbrennur í Róm. Það þurfti að berjast við hið illa eins og Sigmundur Davíð kallaði það. Það er oft þannig í lífinu og sögunni að þeir sem þekkja tiltekin mál alls ekki neitt grípa pennann og setja á blað eitthvað sem þeir halda eða gætu hugsað sér að virkaði. Það er líklega einmitt þess vegna sem staða okkar í svokölluðu fíkniefnastríði versnar. Þeir tjá sig hæst sem vita ekkert um hvað málið snýst og segja; berjumst við hið illa. Ég sé fyrir mér stjórnmálamann sem liggur í baðkari á sunnudagsmorgni að farast úr timburmönnum vegna áfengisdrykkju kvöldið áður. Í heitu vatninu staldrar hugurinn við flókið mál sem margir sprenglærðir sérfræðingar hafa reynt að leysa, en ekki tekist. Stjórnmálamaðurinn fær sömu hugmynd og prestar og klerkar fortíðarinnar hafa fengið allt frá upphafi. Væri ekki best að læsa það inni í skáp eða jafnvel að kveikja bara í því. 


Og mín hugmynd er á þessa leið. Það skiptir öllu máli að Miðflokkurinn komist ekki aftur á þing. Við höfum við ekkert með flokk að gera sem vinnur svo gott sem að því að setja líf og heilsu okkar fólks í hættu. 
Comments

Hlaðvarp Afstöðu komið í loftið!

10/3/2021

Comments

 
Picture

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að Afstaða hefur hafið birtingar á hlaðvarpsþáttum félagsins. Í þáttunum verður rætt um ýmis málefni sem tengjast föngum, réttindum þeirra og fangelsum. Við ræðum stefnuna í fangelsismálum á víðan hátt og vörpum ljósi á mörg mál sem hafa verið áberandi í umræðunni og veita innsýn í líf fanga á meðan afplánun stendur og eftir afplánun. Við munum fá marga góða gesti sem starfa í málaflokknum eða hafa tengingu við hann á einn eða annan hátt. Þættirnir verða á léttum nótum en munu taka á þeim málum sem brennur á í samfélaginu á hverjum tíma. Hlaðvarpið er aðgengilegt á Youtube-síðu Afstöðu, á Spotify og Apple Podcast.  Við vonum að allir njóti þessara þátta en biðjum áhugasama um að senda okkur ábendingar eða uppástungur um umræðuefni þáttanna  eða spurningar á netfangið ritstjorn@afstada.is

Tveir þættir eru þegar komnir inn á síðuna og munu nýir þættir birtast vikulega eða oftar.

Smelltu hérna til að fara á YouTube-síðu Afstöðu.

Smelltu hérna til að fara á Afstöðu á Spotify.

Smelltu hérna til að fara á Afstöðu á Apple Podcast.

Comments

Ályktun stjórnar Afstöðu vegna málefna SÁÁ

1/4/2020

Comments

 
Picture
Stjórn Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, tekur heilshugar undir yfirlýsingu stjórnar Sálfræðingafélags Íslands en í henni voru aðgerðir framkvæmdastjórnar SÁÁ gegn sálfræðingum harmaðar.

Afstaða hvetur einnig meðlimi framkvæmdastjórnar SÁÁ í heild sinni til íhuga stöðu sína vandlega enda löngu kominn tími á jákvæða þróun hjá annars stöðnuðum samtökum.
Samtökin hafa meðal annars hætt meðferðum fyrir fanga eftir gagnlegt áratuga starf og voru því veikustu einstaklingarnir reknir út á gaddinn. Fyrirsvarsmenn SÁÁ hafa ekki verið til viðtals um endurskoðun þessa og telur Afstaða ljóst að heillavænlegast væri ef nýtt fólk kæmi til starfa í stjórninni á faglegum forsendum.
​
Þá tekur Afstaða undir áskorun stjórnar Sálfræðingafélagsins um endurskoðun ákvörðun þeirrar að segja upp sálfræðingum samtakanna og að auki hvetur félagið samtökin til að tryggja að sú fagþekking sem hefur byggst upp undanfarin ár undir stjórn Valgerðar Rúnarsdóttur, forstjóra og yfirlæknis, verði áfram tryggð.
Comments

Ekki hundleiðinlegt heldur mannskemmandi

29/3/2020

Comments

 
Picture
Umræðan um það hversu gott þeir hafi það sem afpláni dóma í íslenskum fangelsum dúkkar upp reglulega og orðræðan um fimm stjörnu hótel með öllum helstu þægindum fylgir í kjölfarið. Hneykslast er yfir því að dæmdir menn fái að horfa á sjónvarpið, fara í sturtu á hverjum degi og hafi aðgang að síma. Við sem störfum í þessum geira vitum auðvitað betur en mögulega örlar á skilningi hjá fleirum þessi dægrin.
Tæplega tíu þúsund íbúar landsins eru í sóttkví, og 850 einstaklingar í einangrun, sem stendur. Þar er ekki um eiginlega frelsissviptingu að ræða og í raun ekki hægt að bera aðstæður þeirra saman við dómþola sem sitja á bak við lás og slá. Aftur á móti eru kunnugleg stef sem birtast í viðtölum við þá sem eru í sóttkví og umfjöllun fjölmiðla um ástandið.
  • „Sakna þess að geta ekki faðmað fólkið mitt.“
  • „Þetta er hundleiðinlegt til lengdar.“
  • „Hvernig á að brjóta upp einsleitnina.“
  • „Öllum ljóst að einangrunin sem sóttkvíin felur í sér er streituvaldandi.“
Þetta eru fjögur nýleg dæmi úr fjölmiðlum, fyrri tvö úr viðtölum og seinni úr umfjöllun um sóttkví. Dæmin eru nær óteljandi. Fólki líður illa í sóttkví, það er einsleitt, streituvaldandi og hefur veruleg neikvæð áhrif á andlega heilsu. Samt hafa flestir í sóttkví allt til alls, eru á eigin heimili, oftar en ekki með fjölskyldu sína með sér og endalaust úrval af afþreyingarefni.
Skjólstæðingar Fangelsismálastofnunar hafa ekki ástvini sína sér við hlið. Þeir hafa raunar ekki fengið að sjá fjölskyldu eða vini síðan neyðarstigi var lýst yfir. Afplánunarfangar eru meira og minna inni í klefum sínum, vanvirkir vegna lamaðrar starfsemi í fangelsum. Það er ekki hundleiðinlegt til lengdar heldur mannskemmandi. Þegar ástandið er „eðlilegt“ er það að sama skapi bagalegt. Sálfræðiþjónusta er lítil sem engin, vinna af skornum skammti og hvatning til betrunar fjarlægur draumur. Fangelsin eru geymsla og enginn sem lokið hefur afplánun telur sig hafa haft það gott.
Afstaða vill hvetja aðstandendur og vini til þess að gefa þeim gaum sem sitja inni, hafa samband og reyna að létta lund þeirra. Þetta er erfiður tími fyrir alla en ekki síst þá sem eru í fangelsum landsins. Það er ekki eftirsóknarvert að vera í fangelsi venjulega en um þessar mundir hreint út sagt skelfilegt.
Comments

Ákall vegna aðstæðna í fangelsum

23/3/2020

Comments

 
Picture

Ákall vegna aðstæðna í fangelsum
-Leynist ónotuð leikjatölva á þínu heimili?

 
„Haldið ykkur heima og spilið tölvuleiki,“ voru skilaboðin frá ítölskum bæjarstjóra á dögunum þar sem hann biðlaði til íbúa bæjarins að virða útgöngubann. Fleiri ráðamenn hafa gert slíkt hið sama og dagblöð á borð við New York Times og Guardian nýverið birt umfjallanir um gagnsemi tölvuleikja á meðan COVID-19 veiran er á sveimi. Þar kom fram að tölvuleikir geti verið skemmtilegir, þeir veiti ánægju en ekki síst huggun á þessum erfiðu tímum, jafnt fullorðnum og börnum.

Í fangelsum landsins er staðan þannig þessa dagana að lítið sem ekkert er um að vera. Öll starfsemi hefur verið skorið niður til þess að vernda þá sem afplána dóma sína en kostnaðurinn við þær aðgerðir er sá að fangar eru meira og minna einir inni á klefum sínum, mestan hluta sólarhringsins. Þetta hefur gríðarleg áhrif á geðheilsu fanga og rannsóknir sýnt að einangrun hefur miklar líkamlegar, tilfinningalegar, andlegar og hugrænar afleiðingar.

Þrátt fyrir að margir hverjir hafi þeir leikjatölvu til að grípa í eru ekki allir fangar svo lánsamir og hafa því gott sem ekkert við að vera og enginn veit hversu lengi.

Afstaða óskar af þessum ástæðum liðsinnis almennings og fyrirtækja, en á mörgum heimilum leynast leikjatölvur sem standa ónotaðar. Þessar leikjatölvur gætu gert kraftaverk þegar kemur að andlegri heilsu fanga um þessar mundir. Ekki skiptir máli hvort leikjatölvurnar séu nýjar eða gamlar, hvort þeim fylgja margir eða fáir leikir. Ef þær virka þá munu þær nýtast í fangelsum landsins.

Geti einhver látið leikjatölvu af hendi rakna má hafa samband í síma 789-0717, í netfangið formadur@afstada.is eða í gegnum samfélagsmiðla Afstöðu. Hægt er að koma tölvunum til félagsins en jafnframt stendur til boða að þær verði sóttar.
 

Comments

Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja

31/12/2019

Comments

 
Picture
Saga frelsissviptra á Íslandi er þyrnum stráð, því miður. Geðsjúkir sem ekki þóttu sakhæfir voru sendir erlendis til vistunar því hvorki þótti þekking né aðstæður til umönnunar hér á landi. Aðstæður barna, sem send voru til vistunar utan heimilis, var lýst sem mannréttindabrotum í skýrslu vistheimilanefndar. Komið hefur í ljós að einangrun var beitt hér á landi, sem aðferð til pyntingar og hafði varanlega skaðleg áhrif á einstaklinga.
 
„Það var eins og slokknaði á öllum skynfærum. Þau höfðu ekki fengið neina næringu, ekkert til að miða sig við og heyrn og sjón og skynjunin öll dofnaði. [...] Það er búið að svipta þig öllu sem gerir þig að manni.“ - Sævar Marinó Ciesielski (f. 1955 – d. 2011)
https://www.visir.is/g/2017170229234
 
Það er nær ómögulegt, fyrir þann sem ekki hefur upplifað, að skilja hvaða áhrif frelsissvipting hefur á líkama og sál. Afstaða hefur starfað í þeim anda; að reyna að auka skilning íslenskra stjórnvalda, og þjóðfélagsins alls, á skaðlegum áhrifum frelsissviptingar og hvetja til rannsókna á þeim aðferðum sem beitt er – þegar ná skal fram tilteknu markmiði, sem hlýtur að vera það markmið að hjálpa einstaklingi að verða betri samfélagsþegn.
 
Hvað gerðist á árinu?
8. janúar tóku gildi breytingar á lögum um umboðsmann Alþingis, þar sem honum var falið að annast eftirlit í samræmi við viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT). Bókunin var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 2002. Í desember 2015 var þingsályktun um fullgildingu bókunarinnar samþykkt einróma á Alþingi. Það var þó ekki fyrr en 29. janúar á þessu ári – 15 árum eftir að undirritun – að bókunin var fullgilt af hálfu Íslands.
 
Bókunin nær til allra staða sem vista frelsissvipta einstaklinga, í lengri eða skemmri tíma, svo sem fangelsum, lögreglustöðvum, heimilum á vegum barnaverndaryfirvalda, úrræðum fyrir fólk með geðraskanir eða geðfatlanir, dvalar- og hjúkrunarheimilum, sambýlum eða öðrum búsetuúrræðum.
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/02/22/Island-fullgildir-bokun-vid-samning-um-bann-vid-pyntingum/
 
 
20. maí átti stjórn Afstöðu fund með nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndinni). Var m.a. tekið til umræðu á fundinum þær athugasemdir sem Afstaða gerði við breytingar á lögum um fullnustu refsinga, þegar ákveðið var að fella út skyldu fangelsisyfirvalda til að gera einstaklingsmiðaða vistunar- og meðferðaráætlun. Alþingi og stjórnvöld ákváðu að hunsa alvarlegar, og ítrekaðar, athugasemdir Afstöðu um þessa afturför. Án slíkrar áætlunar ríkir auðvitað bara stefnuleysi, sem gerir endurhæfingarstefnu ógerlega hér á landi – sem hlýtur þó að vera tilgangur dóma.
https://www.ruv.is/frett/pyntinganefnd-evropuradsins-a-ferd-um-island
 
Í lok maí lét fangaprestur, sr. Hreinn Hákonarson, af störfum eftir aldarfjórðung í embætti. Sr. Hreinn var einn fjögurra sem Afstaða heiðraði sérstaklega á 10 ára afmæli félagsins, fyrir störf sín í þágu frelsissviptra. Eitt af þeim góðu verkum sem sr. Hreinn hleypti af stokkunum í tíð sinni, og bíða nú nýs fangaprests, er «Englatréð» sem veitt hefur börnum fanga yl og birtu um jól. Félagið hlakkar til samvinnu við nýjan fangaprests.
http://www.afstada.is/blogg/fangar-eiga-lika-born
 
Í júní átti formaður Afstöðu fund með menntamálaráðherra, Lilju Dögg Alfreðsdóttur. Nefnd um menntamál fanga hefur verið að störfum innan ráðuneytisins, en Afstaða hefur því miður ekki haft aðkomu að þeirri vinnu. Það er mat Afstöðu, þegar kemur að þessum viðkvæma málaflokki, að mikilvægt sé að sú víðtæka reynsla sem er að finna innan félagsins sé nýtt – öllum til hagsbóta. Á það bæði við þegar kemur að stefnumótun, sem og framkvæmd stefnunnar.
 
Í ágúst lést fangi á Litla-Hrauni, en krufning leiddi í ljós að viðkomandi hafði neytt mikils magns af efninu «Spice». Rúmum tveimur árum áður hafði Afstaða þó varað við því í blaðagrein að vitlausar áherslur yfirvalda í baráttunni gegn fíkniefnaneyslu myndu leiða til enn harðari neyslu. Spá félagsins hefur ræst skref fyrir skref og nauðsynlegt er að stjórnövld skipi strax ráðgefandi nefnd fyrir ríkisstjórnina um þessi mál með aðkomu Afstöðu og Frú Ragnheiðar(RKÍ).
https://www.visir.is/g/2017170309994
 
29. október felldi siðanefnd Blaðamannafélags Íslands úrskurð í máli Afstöðu gegn umfjöllun DV, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ritstjórinn hafi brotið gegn siðareglum blaðamanna. Var ritstjórinn átalinn fyrir að birta ljósmyndir af einstaklingi sem var í afplánun á áfangaheimili fangahjálparinnar Verndar; tekið myndir og lýst bifreiði í eigu móður hans sem hann hafi til umráða; birt heimilisfang móður hans; fjallað um fötlun bróður hans og rætt andlát föður hans - sem ekkert erindi átti við almenning. Því miður hefur orðið aukning á óvandaðri umfjöllun fjölmiðla þar sem gert er út á múgsefjun, fremur en upplýsingamiðlun – sem á raunverulegt erindi við almenning.
https://www.press.is/static/files/Malsurskurdir/urskurdur-mal-nr.-5-2019-2020.pdf
 
Desember var mánuður vonar...
...þá tók félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, við skýrslu starfshóps um málefni fanga að lokinni afplánun sem Afstaða átti m.a. sæti í.
SJÁ: Greinargerð Afstöðu til starfshópsins
 
...kynnti heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, að gerður hefði verið samningur við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um að sinna geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öllum fangelsum landsins. Stofnað verður sérhæft, þverfaglegt geðheilsuteymi fanga í þessu skyni sem mun starfa með og styðja við starfsemi heilsugæslunnar í fangelsum.
 
...birti dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, myndskeið á fésbókarsíðu sinni þar sem hún kynnti aðgerðaráætlun sem felur m.a. í sér að efla heilbrigðisþjónustu meðan á afplánun stendur og að framkvæmd þjónustu í fangelsum verði markviss og samhæfð. Þá talaði hún um mikilvægi þess að efld verði menntun starfsmanna fangelsanna. Afstaða tekur undir þessar áherslur, en telur mikilvægt að samhliða breyttu hlutverki verði hætt að kalla starfsfólk fangelsa «verði».
https://www.facebook.com/aslaugarna/videos/580533992774759/
 
 
Ef síðasti mánuður ársins 2019 er merki um það sem koma skal á nýju ári – þá er von um að í vændum séu jákvæðar breytingar á málaflokknum og merki um að skilningur á tilgang dóma sé að aukast.
 
Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja
Það þarf þó að horfa á viðfangsefnið í víðara samhengi, því ekki er nóg að horfa á einn anga réttarkerfisins. Auka þarf t.d. úrræði dómstóla við úrlausn mála, sem í dag miðast fyrst og fremst við beitingu sekta og fangelsisdóma. Þá liggur fyrir Alþingi frumvarp um sjálfstætt eftirlit með lögreglu, sem nauðsynlegt er að komið verði á fót. Nefna mætti fleiri mál sem liggja fyrir Alþingi, eins og frumvarp um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni ásamt þingsályktunartillögu um betrun fanga.
https://www.althingi.is/altext/erindi/150/150-411.pdf
https://www.althingi.is/altext/erindi/150/150-682.pdf
 
 
Fyrri part ársins hóf Afstaða rekstur skrifstofu þar sem m.a. er hægt að eiga viðtöl við aðstandendur fanga. Það er enda hópur sem hefur lítið verið sinnt, en þarfnast aðstoðar; bæði þjónustu og upplýsinga. Mikilvægt er að komið verði á fót miðstöð slíkrar þjónustu, þangað sem bæði dómþolar og aðstandendur þeirra geta leitað; þar sem allir þjónustuaðilar eru með aðstöðu. Afstaða hefur áður bent á að Hegningarhúsið fyrrverandi væri tilvalinn staður til að hýsa slíka þjónustumiðstöð. Sú von er enn til staðar!
http://www.afstada.is/blogg/um-aramot-frelsi-hvad-svo
 
Afstaða óskar öllum frelsis og velfarnaðar á nýju ári.
 
Guðmundur Ingi Þóroddsson
formadur@afstada.is
Comments

Fangar eiga líka börn

23/12/2018

Comments

 
Picture
Þetta var meðal þess sem stóð á miðunum sem héngu á “Englatré” því sem fangapresturinn, sr. Hreinn S. Háonarson, kom fyrir í anddyri Grensáskirkju á fyrsta í aðventu - nú 12 árið í röð.
 
“Á jólatré þetta eru hengd lítil spjöld í engilsmynd og tréð því kallað Englatréð. Á spjaldi þessu stendur leyninafn barnsins og aldur. Safnaðarfólk hefur síðan verið hvatt til þess að taka eitt spjald og finna litla gjöf handa viðkomandi barni og leggja hana síðan við tréð. Fangaprestur setur síðan nýjan jólamerkimiða á hvern pakka eins og væri hann hver annar jólasveinn (!) því hann veit hið rétta nafn barnsins, skrifar það á  miðann og setur á gjöfina með kveðju frá vini eða vinkonu, eða jólasveininum. Englaspjöldin hafa alltaf runnið út því fjölmargir hafa viljað leggja málinu lið. Fjöldi spjalda skiptir tugum og stundum hefur þurft að hafa tvö spjöld á barn til að koma til móts við hinn mikla áhuga og velvilja safnaðarins” sagði m.a. í pistil sr. Hreins um þetta efni á heimasíðu hans wwwfangelsismal.is
http://www.fangelsismal.is/2018/12/02/faein-ord-a-adventu-um-born-fanga-og-englatred/ 

 
Já, velviljinn er mikill gagnvart þeim sem minnst mega sín – þ.e. börnum þeirra sem dvelja í fangelsum um jólin. Því það eru í reynd þau sem þjást vitandi af foreldri sínu sem er aðskilið frá fjölskyldu og vinum á þeim tíma ársins sem fólk kemur saman til að treysta böndin. Vanlíðanin hjá þeim sem í fangelsi eru snýr enda fyrst og fremst að því að hugsa til barnanna, fjölskyldu og vina – sem hafa áhyggjur af hinum frelsissvipta.
 
Afstaða vill þakka öllum sem sýna föngum, börnum þeirra og öðrum vandamönnum hlýhug og skilning, nú þegar jólin ganga í garð.
 
Afstaða óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.
 
ritstjorn@afstada.is
​
Comments

Að læra af reynslu

18/10/2018

Comments

 
Picture
Samanburður milli Norðurlanda, var án Íslands. Mynd/NORLAU
​Í gær lauk alþjóðlegri ráðstefnu, fyrstu sinnar tegundar, þar sem fjallað var um leiðir í viðurlögum við afbrotum á grundvelli reynslu í Evrópu. Gömul viðhorf, um að það sé góð leið að kasta fólki í dyflisu ef það virðir ekki þá samfélagssáttmála sem settir hafa verið í lög, virðast á útleið með aukinni þekkingu – sem byggð er á rannsóknum.
 
Margar leiðir, aðrar en fangelsi og fésektir, voru kynntar til sögunnar. Sáttarferli, meðferðarúrræði við brotum undir áhrifum lyfja og vímuefna, og aðferðir til að fá hinn brotlega til að horfast í augu við gjörðir sínar. Því ef einstaklingur keyrir ítrekað undir áhrifum efna sem brengla athygligáfur hans, mun hann vissulega ekki keyra ef hann er í fangelsi, en tilgangurinn hlýtur að vera að fá hann til að láta af hegðun sinni. Því hafa dómstólar fengið fleiri úrræði til að beita við úrlausn mála.
 
Til að dómari geti tekið upplýsta ákvörðun er lögð fyrir hann skýrsla (s.k. Pre-Trial Report) sem hann leggur til grundvallar, ásamt samtali við sakborning, áður en kveðinn er upp dómur í máli. Ásamt því að fallast á niðurstöðu dómarans, þar sem beitt er öðrum leiðum en fangelsisvist, er jafnframt möguleiki á að viðkomandi beri ökklaband ásamt öðrum skilyrðum. Í íslenskum lögum er heimild fyrir að beita meðferðarúrræði, en svo virðist sem því sé ekki beitt þar sem dómarar telja aðhald og eftirfylgni skorta. Víða í Evrópu hefur hins vegar myndast traust, með milliliðalausum samskiptum dómara við þá sem skilorðseftirlitinu sinna, sem hefur aukið beitingu annarra úrræða en fangelsisvist.
 
Úrræði byggð á rannsóknum
Á ráðstefnunni var fjallað um rannsóknir sem byggja á beitingu nýrra úrræða, enda rannsóknir grundvöllur þess að hægt sé að meta hvort ætluðum tilgangi sé náð; að koma í veg fyrir frekari afbrot. Sameiginleg þróun á matsskýrslum, sem gerðar eru við upphaf afplánunar, leiðir einnig til þess að raunverulegur samanburður er nú mögulegur milli landa. Á því byggja úrræðin sem beitt er. Ef kemur í ljós að þau eru ekki að virka, þá er öðrum aðferðum beitt.
 
Það er merkilegt og uppörvandi að sjá hversu mikið er litið til Norðurlandanna þegar kemur að betrunarúrræðum. Í gegnum þróunarsjóð EES landanna (sem eru 3 lönd; Noregur, Ísland og Liechtenstein) er jafnframt stutt við framfarir á þessu sviði í Evrópu. Noregur er þar í fararbroddi og styður með markvissum hætti við fjölda verkefna á þessu sviði með sérfræðiþekkingu, stuðningi og aðhaldi.
 
Ísland ekki með
Reyndar er það ofsögum sagt að telja Ísland með þeim löndum sem litið er til. Glærur með norrænum samanburði innihéldu enda ekki upplýsingar frá Íslandi, enda hér ekki stundaðar markvissar rannsóknir á þessu sviði. Þess er enda getið í norrænum samanburðarskýrslum, að í raun sé samanburðurinn ekki marktækur. Til þess að samanburður sé mögulegur þurfa löndin að hafa úrræði og kerfi sem hægt er að bera saman, en svo virðist sem Ísland fjarlægist æ meir þau lönd sem við viljum svo oft bera okkur saman við!
 
Á Íslandi höfum við þó góðan efnivið til að búa til gott betrunarkerfi; t.d. vel menntaða dómara, tvö opin fangelsi og ökklabönd. En, eins og Afstaða hefur ítrekað bent á skortir allt «innihald» hér á landi. Ef dómstólarnir hafa ekki nein önnur úrræði að beita en fésektir og fangelsi; ef ekkert einstaklingsmat fer fram og metin þörf á aðstoð; ef umsjón með ökklaböndum er bara falin einhverri öryggismiðstöð út í bæ, án þess að því fylgi einhver önnur úrræði, þá er ekki von á góðu.
 
En það vill svo til að aðstoðin stendur til boða. Aðstoð við að koma á fyrirmyndarkerfi að "norrænni fyrirmynd". Það er eitthvað sem við ættum að nýta okkur!
Comments

Afplánun til lífstíðar?

12/10/2018

Comments

 
Réttarvörslukerfið byggir á því að ef að einstaklingur fremur afbrot er hann dæmdur til viðeigandi refsingar af hálfu dómstóla. Dómstólar landsins eru skipaðir af lögfræðimenntuðum einstaklingum, sem hafa öll gögn málsins undir höndum og hlusta á vitnisburð gerandans, þolandans og vitna að hlutaðeigandi máli. Þegar afplánun afbrotamannsins er lokið hefur skuld hans við samfélagið verið greidd. Þannig virkar kerfið okkar – afbrot er framið og refsing er tekin út. En hvað svo?

Staðreyndin er sú að dómþolar koma út í samfélagið aftur og munu þurfa að hafa í sig og á og afla sér og fjölskyldum sínum lífsviðurværis. Það að hafa setið inni breytir ekki gangi lífsins og dómþolar þurfa að afla tekna, rétt eins og þeir sem hafa hreina sakaskrá. Eðli máls samkvæmt er rétt og eðlilegt að viss afbrot leiði til takmarkana á því að starfa við tiltekin störf, t.d. maður dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn börnum vinni með börnum eða maður dæmdur fyrir fjársvik/fjárdrátt starfi við umsýslu með peninga annarra.

Nýverið hafa heyrst háværar raddir um að dómþolar eigi ekki að starfa við hin ýmsu störf á hinum frjálsa markaði eða hjá hinu opinbera. Þeir eiga helst ekki að starfa sem lögmenn, umönnunaraðilar, kennarar, læknar, hjúkrunarfræðingar, bílstjórar, leikarar eða í öðrum sýnilegum störfum. Þá er einnig ákjósanlegast að vinnuveitendur reki fólk ef upp kemst að viðkomandi hefur setið inni, án tillits til þess hvort viðkomandi sé reglusamur, hafi sinnt starfi sínu vel eða hafi gerst brotlegur við lög á ný.

Í rauninni eru afar fá störf sem þykir ásættanlegt að dómþolar inni af hendi. Spyrja má hvort þau störf sem eftir standa séu eitthvað verri en þau sem áður eru upptalin – hvers vegna er skárra að dæmdur einstaklingur afli tekna við að malbika götur borgarinnar heldur en við málflutning í dómsmáli um galla í fasteign eða við að þylja texta úr hugarheimi Shakespeare? Öll leggjum við eitthvað af mörkum til samfélagsins, dæmd sem ódæmd. Er ekki skárra að dómþolar afli sér lífsviðurværis í gegnum störf sem þeir eru menntaðir til, hafa áhuga á og eru góðir í – í stað þess að leggjast á velferðarkerfið, þar sem brotaþolar og aðrir samfélagsþegnar greiða í raun fyrir uppihald viðkomandi? Eða vegur refsigleðin og hefndargirnin svo mikið þyngra heldur en svo?

Á undanförnum árum hefur orðið mikil og góð þróun í fangelsismálum á Norðurlöndunum þar sem stefnt hefur verið að því að styrkja betrunarstefnuna í stað þess að halda uppi refsistefnu. Betrunarstefnan gengur út á það að sá tími sem varinn er í afplánun sé uppbyggilegur fyrir dómþolann, í stað þess að honum sé varið í tímabundna geymslu á kostnað skattgreiðenda. Þetta hefur gefið góða raun og leitt til lægri endurkomutíðni í fangelsi, sem þýðir raunar að afbrotum, og þ.a.l. þolendum, hefur fækkað. Markmið betrunarstefnunnar verður þó að viðhaldast þrátt fyrir að afplánun sé lokið. Útskúfun og brennimerking dómþola er miðaldarleg aðferð og hefur aldrei virkað. Þvert á móti kann útskúfun dómþola úr samfélaginu að skapa biturð og reiði og er þá frekar til þess fallin að auka líkur á endurtekningu afbrota.
​
Skerðing atvinnuréttinda er skerðing stjórnarskrárvarinna mannréttinda. Sú mikla og góða þróun sem hefur verið í fangelsismálum hefur verið í þá átt að vernda mannréttindi dómþola, jafnt sem annarra borgara. Til þess hefur þjóðin skuldbundið sig með alþjóðlegum sáttmálum. Skerðing atvinnuréttinda einstaklinga, sem þegar hafa tekið út sína refsingu, væri þannig mikið afturfararskref. Við sem manneskjur getum verið grimm og hefnigjörn og það er heimsins eðlilegasti hlutur. Hins vegar hefur verið ríkjandi almenn sátt um að samfélagið okkar þurfi að vera betra en svo. Samfélagið þurfi að vera miskunnsamt og mannúðlegt. Er ekki hægt að fallast á að veigamikil rök mæli með því að sýna dæmdum einstaklingum þá mannúð að gefa þeim annað tækifæri í lífinu eftir að þeir hafa afplánað þá refsingu sem var talin viðeigandi af dómstólum? Að útskúfa þá ekki og heimila þeim að sjá fyrir sér og fjölskyldum sínum, með því að vinna störf sem hæfir þeirra menntun, hæfileikum, dugnaði o.s.frv., eins og gengur og gerist með annað vinnandi fólk? Sé fólk ósammála þessu og almennt hlynnt afar yfirgripsmiklum skerðingum á mannréttindum dæmdra manna, er rétt að taka til skoðunar hvort það vilji ekki í raun fá lífstíðarfangelsi eða dauðarefsingar leidd í lög á Íslandi. Slíkar refsingar eru t.a.m. að finna í hinum ýmsu ríkjum sem við höfum almennt ekki viljað líkjast þegar kemur að fangelsismálum – eða mannréttindamálum yfirhöfuð. Fróðlegt væri að sjá hvort slíkar aðgerðir myndu leiða til réttlátara og betra samfélags – sem hlýtur að vera endanlegt markmið okkar allra. Eða hvað?
Comments

Fangar hunsaðir af SÁÁ

11/5/2018

Comments

 

Nú hefur SÁÁ tekið ákvörðun um að sinna ekki einum hópi fíkla. Þetta er sá hópur sem hefur sennilega verst orðið úti vegna misnotkunar fíkniefna og hlotið dóm fyrir, sem afplána hefur þurft í fangelsi. Fyrir vikið er nú m.a. hópur fanga sem er fastur í fangelsi, því framgangur í kerfinu er skilyrtur því að viðkomandi fari í meðferð – áður en hann losnar.
 
Undanfarinn mánuð hefur minnst einn í viku hverri látist sem ég þekkti, eftir að hafa kynnst honum í fangelsi. Orsökina má meðal annars rekja til úrræðaleysis gagnvart vanda þessara einstaklinga.
 
Þegar SÁÁ ákvað að hætta að þjónusta fanga sendi ég bæði fangelsisyfirvöldum og SÁÁ erindi þar sem ég leitaði skýringa. Svörin sem ég fékk voru að uppi væri krafa um aukin fjárframlög til SÁÁ, auk þess sem ekki væri valdir nægjanlega hentugir fangar til að veita aðstoð með meðferð að lokinni afplánun. Þrátt fyrir að ég hafi óskað ítarlegri svara frá formanni SÁÁ, hafa þau ekki borist.
 
Rétt er að taka fram að SÁÁ fær myndarlegar greiðslur frá ríkinu ár hvert til að standa undir starfseminni. Fyrir mér lítur staðan út sem einhvers konar fjárkúgun, þar sem ríkisvaldinu er stillt upp við vegg til að auka fjárframlög. Á meðan sitja hin raunverulegu fórnarlömb aðgerðarleysisins hjá, og líða fyrir – jafnvel með lífi sínu.
 
Réttast væri að hið opinbera stöðvaði, nú þegar í stað, öll opinber framlög til SÁÁ. Staðan er einfaldlega grafalvarleg - og ólíðandi!
​
formadur@afstada.is 
Comments
<<Previous
Forward>>
    Picture

    höfundar

    Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu bloggar, ásamt öðrum talsmönnum fanga,  um málefni fanga og betrun. formadur@afstada.is

    pistlasafn

    September 2021
    June 2021
    March 2021
    April 2020
    March 2020
    December 2019
    December 2018
    October 2018
    May 2018
    April 2018
    March 2018
    February 2018
    October 2017
    September 2017
    August 2017
    July 2017
    April 2017
    December 2016
    November 2016
    October 2016
    August 2016
    July 2016
    May 2016
    April 2016
    March 2016
    February 2016
    January 2016
    December 2015
    November 2015
    September 2015
    August 2015
    July 2015
    March 2015
    February 2015
    January 2015
    December 2014
    November 2014

    RSS Feed

AFSTAÐA Icelandic advocacy group for better prison policies and betterment.
© AFSTAÐA 2021
  • Forsíða
  • Um felagid
  • Blogg
  • Rannsoknir
  • Stjornsysla
  • Stefnumotun
  • FJÖLMIÐLUN
    • PODCAST
    • AFSTADA TV