Ég er í hálfgerðu áfalli eftir að hafa horft á fréttaskýringarþáttinn Kveik á RÚV í kvöld þar sem fjallað var um framheilaskaða. Samhliða því að vera í áfalli er ég hryggur og reiður út í kerfið okkar og hvernig farið er með fólk í samfélagi sem hreykir sér af mannréttindum. Veikir einstaklingar eru vistaðir í fangelsum landsins, í einangrun og jafnvel færðir á svonefndan öryggisgang vegna hegðunar og þar mega þeir dúsa mánuðum saman án þess að eiga í samneyti við aðra. Þetta er fólkið sem þarf að afplána lengur í fangelsum vegna þess að Fangelsismálastofnun getur hreinlega ekki sleppt þeim út því það eru engin úrræði þegar út í samfélagið er komið. Það tekur ekkert við. Við hjá Afstöðu höfum gagnrýnt þetta í áraraðir en það er aldrei hlustað. Hvenær verður gerð heildstæð úttekt á starfsemi fangelsanna og starfsaðferðum þegar kemur að þessum hópi? Hvenær ætli stjórnvöld þurfi að semja um sanngirnisbætur þegar kemur að veikum föngum? Þroskaskertir og alvarlega geðfatlaðir einstaklingar hafa verið að meðaltali um fimm til sex á hverjum tíma í fangelsunum en svo koma þessar tölur fram. Fimmtíu prósent fanga eru með framheilaskaða! Þetta er grafalvarlegt mál og þarf að rannsaka strax, finna lausnir og það nú þegar. Engu að síður má telja Fangelsismálastofnun það til tekna að þar eru flottir sérfræðingar sem ég bind miklar vonir við. Þar hefur verið bætt við einstaklega hæfu starfsfólki en aðeins örfá ár eru síðan starfsmenn þarf vissu hreinlega ekki út á hvað endurhæfing fanga gekk út á. Hins vegar mun ekkert breytast á meðan áfram er unnið eftir sömu gömlu og úreltu lögunum og starfsaðferðunum. Tími endurhæfingar er runninn upp og ég treysti á nýjan dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, til að taka í taumana og láta verkin tala. Komum veiku fólki á viðeigandi stofnanir og þær eru ekki fangelsi. Veikt fólk á ekki heima á bak við lás og slá. "Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að einn af hverjum tíu verður fyrir alvarlegum heilaskaða um ævina. Erlendar rannsóknir benda til þess að í það minnsta helmingur fanga sé með heilaskaða. Í rannsókn á sænskum heilbrigðisgögnum og fangelsisskýrslum kom í ljós að fólk með heilaskaða var þrisvar sinnum líklegra til að fremja ofbeldisglæpi en aðrir og helmingi líklegra til þess en ósködduð systkini. Í flestum tilvikum má rekja þetta til framheilaskaða." https://www.ruv.is/kveikur/heilaskadi/ Flest okkar göngum að því vísu að geta framvísað persónuskilríkjum þegar farið er fram á að við gerum grein fyrir því hver við erum. Þannig eigum við í viðskiptum við fyrirtæki, stofnanir og stjórnsýsluna. Með aukinni tæknivæðingu hafa skilríkin að miklu leyti færst yfir á rafrænt form og um leið sitja ákveðnir hópar eftir í fortíðinni. Þar á meðal eru fangar og fatlaðir einstaklingar.
Í Danmörku var sett í lög að allir þurfi að hafa aðgang að rafrænu pósthólfi og er allt sent þangað til fólks í stað til dæmis ábyrgðarpósts. Þetta hafði í för með sér að fangar í lokuðum öryggisfangelsum fengu aðgang að tölvu með interneti til að komast í pósthólfið sitt, banka og einnig til að geta gengið frá skattaskýrslum og sinna öllu því sem allir þurfa að gera. Mjög algengt er að við hjá Afstöðu aðstoðum fólk sem hefur verið í afplánun en hefur ekki skilað skattaskýrslum í mörg ár og jafnvel áratugi. Það getur verið flókið að vinna úr því ásamt að reyna að ná höndum yfir sektir, sakakostnað og meðlög. Þetta er í raun skuldafangelsi og svartnætti sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Þetta er hægt að laga á mjög einfaldan hátt og höfum við hjá Afstöðu oft komið með góð og gagnleg ráð til yfirvalda um hvernig sé hægt að leysa þetta ásamt ýmsu öðru. Við teljum nauðsynlegt að allir fangar hafi aðgang að tölvu og rafrænum skilríkjum þar sem þeir geta sinnt sínum nauðsynlegu og lögbundnu verkefnum sem allir þurfa að gera. Þá þarf að sinna bankamálum og öðru sem fólk gerir þar sem rafrænna skilríkja er krafist. Fangaverðir vita vissulega hversu flókið þetta getur verið og aðstoða eftir mesta megni en það er auðvitað bara takmarkað því á endanum þarf síma til að komast í rafræn skilríki. Og smart símar eru óleyfilegir bæði í lokuðum sem opnum fangelsum. Þar sem umræðan er hávær núna um rafræn skilríki og rætt um ákveðna hópa sem ekki geta nýtt sér þá þjónustu er nauðsynlegt að benda á þá og krefjast þess að sett verði í lög ákvæði sem tryggir aðgengi allra að jafn sjálfsögðum hlut og að framvísa skilríkjum sínum til þess að halda utan um lífið eins og það leggur sig. Það er nefnilega þannig að þeir sem sviptir eru frelsinu með dómi munu snúa aftur út í samfélagið og þá er mikilvægt að öll mál séu á hreinu þannig það þurfi ekki að vera fyrsta verkefni að leysa úr öllum flækjum sem hefðu aldrei þurft að verða. Það er getur verið mörgum ofviða því miður. Samhliða köllum við eftir markvissari fjármálakennslu í fangelsum landsins. Við sem samfélag þurfum að fá fólk í betra ástandi út úr fangelsunum og ekki endalaust að setja upp hindranir. Lausnir fyrir alla - ekki bara suma. Íslenskur karlmaður sem nú er vistaður í fangelsinu Litla-Hrauni hefði að öllu jöfnu átt að losna úr haldi fyrir rúmu hálfu ári, eða í byrjun maí. Afstaða, félag fanga, hefur unnið að máli mannsins í stjórnsýslunni en að sögn félagsins hafa fangelsisyfirvöld synjað manninum um reynslulausn vegna þess að lögregla sé með mál á hendur honum til rannsóknar.
Málið snýst um umdeilda og mjög vafasama lagareglu þ.e.a.s. 5. mgr. 80. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 þar sem segir: „Fanga, sem á mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er grunaður um refsiverðan verknað, verður að jafnaði ekki veitt reynslulausn, enda sé málið rekið með eðlilegum hætti og dráttur á því ekki af völdum fangans.“ Samkvæmt upplýsingum frá Afstöðu er um að ræða séríslenska reglu sem er með öllu óútskýrð. Sömu reglu er að finna víða í fangelsislöggjöfinni og þá til skerðingar á réttindum fanga. Notuð til að skerða réttindi fanga. Reglan er eins og skemmd í banana. Erfitt er að finna haldbæran rökstuðning fyrir reglunni, eða að benda á tengsl hennar við tilgang og markmið reynslulausnar eða laganna almennt. Hún laumaði sér inn í lögin árið 2005 í gegnum reglugerð frá árinu 1993 sem hafði fengið verulega útreið í áliti Umboðsmanns Alþingis frá 2000. Þá fellur hún ekki að niðurstöðum Mannréttindadómstóls Evrópu. Við lagasetninguna árið 2005 skaust hún inn í lagatextann án skýringa eða umræðu. Upp frá því hefur hún verið notuð óspart til að synja föngum um réttindi sín, en enginn hefur þó gert nothæfa tilraun til að rökstyðja hana. Slíkar tilraunir hafa fætt af sér rökleysu, enda ómögulegt að ímynda sér aðstæður þar sem hún falli í hópinn. Eitt er augljóst og blasir við. Regluna má misnota. Tilvist hennar ein og sér býður hættunni heim. Lögreglan getur, hvað sem hver segir, einfaldlega skráð mál í kerfið með þeim afleiðingum að „tiltekinn“ einstaklingur fái ekki reynslulausn. Og reglan veitir jafnvel almennum borgurum tækifæri til að halda mönnum í fangelsi, með því að leggja fram skipulagða kæru á hendur fanga. Hér er ekki verið að segja að lögregla misfari með það vald sem lagareglan veitir henni, eða að almennur borgari taki upp á slíku. En leiðin er hins vegar fær og það eitt ætti að duga til að afskrifa hana. Allt hugsandi fólk ætti því að sjá að umrædd regla er röng. Hún hefur engan sjáanlegan tilgang og er miklu líklegri til að valda skaða en gagni. Það eru einmitt svona reglur sem valda því að almenningur missi trú á réttarkerfið. Gögn málsins, sem send hafa verið til dómsmálaráðuneytisins, gefa vísbendingu um að lögregla hafi í raun farið frjálslega í kringum lagaboð við rannsókn máls þessa manns. Ráðuneytið hefur undir höndum gögn frá barnsmóður mannsins sem kveðst hafa verið beitt þvingunum af lögreglufulltrúa við skýrslutöku. Barnsmóðirin ber við að lögreglufulltrúi hafi hótað henni ef framburður hennar væri ekki viðunandi og staðið við hótunina í beinu framhaldi. Í upphafi í máli fangans hafi lögregla reynt að hafa áhrif á það hver yrði verjandi mannsins. Þannig hafi lögregla neitað að verða við beiðni mannsins um verjanda, heldur sjálf ákveðið hver skyldi verja hann. Það er reyndar nokkuð sem stöðugt kemur á borð Afstöðu, en lögreglu er frekar tamt að velja sakborningum verjendur. Það er tekið fram að ekki er verið að gagnrýna viðkomandi lögmenn, heldur bent á að val rannsakanda á verjanda andstæðings síns er fallið til efasemda. Í ljósi þessa máls og annarra hefur Afstaða bent á að íslensk fangelsislöggjöf byggi á öðrum forsendum en löggjöf þjóðanna í kringum okkur. Hvað eftir annað eru synjanir um reynslulausn rökstuddar með óskiljanlegum hætti og jafnvel rökleysum. Einn algengasti rökstuðningur yfirvalda, og grundvallarrök fyrir synjunum, er í hróplegri andstöðu við úrtölur sem eru birtar á vef Fangelsismálastofnunar. Afstaða fer ekki ofan af því að víða í íslenskri fangelsislöggjöf eru ómálefnalegar lagareglur sem standast hvorki stjórnarskrá né markmið laganna sjálfra. Þetta er einnig sannleikur um nálgun fangelsisyfirvalda og lögskýringar þar á bæ. Telur félagið að skýringin sé sú að heildarmyndin snúi öfugt. Í stað þess að fjalla um skyldu stjórnvalda til að veita réttindi, er talað um heimild. Íslenskur fangi þarf að rökstyðja það hvers vegna yfirvöld eigi að veita honum heimild til reynslulausnar. Sænskum stjórnvöldum er skylt að veita fanga reynslulausn og þurfa að rökstyðja það sérstaklega ef hann á ekki að hljóta hana. Reyndar telur Afstaða að mjög víða í löggjöf landsins séu ómálefnalegar lagareglur um réttindi manna, sem fæðast í þeirri hugmynd að lög séu skrifuð fyrir stjórnvöld til að útdeila réttindum, en ekki fyrir borgarana til verndar réttindum þeirra. Fangelsi hafa heimild samkvæmt lögum um fullnustu refsinga til að beita ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð og brjóta þannig gegn 68. gr. stjórnarskrárinnar. Afleiðingarnar geta verið þær að fangi þurfi að fara skítugur í heimsókn, sé hann ekki líka í heimsóknarbanni vegna agaviðurlag.
Í 1. mgr. 27. gr. laga um fullnustu refsinga segir: „[Fangi] skal [...] fá greidda dagpeninga [...]. Ráðherra ákveður fjárhæð dagpeninga með gjaldskrá og skal hún miðast við að fangi eigi fyrir brýnustu nauðsynjum til persónulegrar umhirðu.“ Í 28. gr. laga um fullnustu refsinga segir: „Dagpeninga [...] má taka til greiðslu á skaðabótum eða öðrum útgjöldum sem fangi verður ábyrgur fyrir meðan á afplánun stendur, þar á meðal skuldum sem hann hefur stofnað til við fangelsi. Þó skal ekki heimilt að taka meira en fjórðung af dagpeningum eða launum til slíkra greiðslna.“ Í 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“ Viðmið dagpeninga er réttur allra til mannlegrar reisnar eða mennsku sinnar. 28. gr. laga um fullnustu refsinga veitir því heimild til að svipta einstakling mannlegri reisn. Fangelsismál eru líklega ekki efst á vinsældarlista landsmanna en eflaust bæði áhyggjuefni og hagsmunamál. Fangelsismál eru reglulega í fréttum og ýmsir kannast við vímuefnaneyslu í fangelsum, langa boðunarlista, framkvæmdir á Litla-Hrauni, átök í fangelsum, skýrslu stýrihóps, bataleiðir og ýmislegt annað misblessað. Líklega eru það þó engar ýkjur að segja að fáir þekkja sjálft fangelsiskerfið, réttindi fanga og þau sjónarmið sem ráða ferðinni við fullnustu refsinga.
Tilgangurinn nú er að fjalla um umdeildar lagareglur og sjónarmið fangelsisyfirvalda þegar kemur að afstöðu þeirra til réttinda fanga. Rök verða færð fyrir því að lögin séu að mörgu leyti handahófskennd og rökstuðningur að baki ákvörðunum byggður á sérkennilegri afstöðu til mannréttinda borgara. Skýringin helgast af þeirri áráttu fangelsisyfirvalda að endurtaka í sífellu að það sé meginregla að refsing skuli afplánuð að fullu í fangelsi. Því séu reglur sem kveði á um annað undantekningarreglur sem skýrðar séu þröngt og komi aðeins skoðunar í vissum tilvikum og þá aðeins þegar sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Langflestar ákvarðanir í fangelsiskerfinu styðjast við þessa nálgun fangelsisyfirvalda þrátt fyrir að yfirvöld sjálf hafi sýnt fram á það að túlkun þeirra sér röng. Að síendurteknu og gefnu tilefni er nú ætlunin að fjalla um réttindi fanga út frá grundvallarreglum stjórnarskrárinnar og lögum um fullnustu refsinga. Greininni er ætlað að gagnrýna lögin sjálf og stjórnvöld fangelsismála fyrir rökstuðning að baki ákvörðunum sínum. Líklega eru fangelsismál ekki eini málaflokkurinn sem þarfnast gagnrýni en hann er góð byrjun það sem fangavist varðar augljósa skerðingu á mikilvægustu réttindum manna. Í umfjölluninni verður rætt um reynslulausn vegna þess hversu oft og ítrekað sami rökstuðningurinn birtist í synjunum fangelsisyfirvalda og þá um leið vegna hinn umdeildu lagareglna sem um fyrirbærið gilda. Grundvallarreglurnar Stjórnarskrá Íslendinga er nokkurs konar þjóðsöngur landsmanna. Hún fjallar um sameiginleg grundvallargildi lítils lýðveldis sem gefur fyrirheit um að allir borgar séu jafnir og skuli njóta mannréttinda. Stjórnarskránni er ætlað það lykilhlutverk að vernda þessi grundvallarréttindi allra borgar gagnvart ríkisvaldinu. Hún er því öllum lögum æðri og fælir frá hvers kyns fyrirmæli sem brjóta gegn henni. Skylda hvílir á ríkisvaldinu að tryggja borgurum að lög um réttindi og skyldur séu sett og túlkuð í samræmi við grundvallargildin. Aðeins í algjörum undantekningartilvikum má víkja frá ýtrustu kröfum stjórnarskrárinnar og þá þegar sannanlegir almannahagsmunir eru augljóslega mikilvægari en réttindi einstaks borgara. Slíkar aðstæður geta meðal annars komið upp á styrjaldartímum. Hver er munurinn á réttindum og ívilnun? Stjórnarskráin færir öllum borgurum jöfn réttindi. Ívilnun er annars konar lagaúrræði sem byggist á svipuðum sjónarmiðum. Þessum hugtökum er stundum ruglað saman en vísbendingar um það finnast bæði í verkum ríkisvalds og dómstóla. Munurinn skýrist einkum í því að réttindum fylgir skylda en ívilnun er háð leyfi. Ívilnun er nokkurs konar verkfæri sem ríkisvaldið notar til að efna skyldu sínar samkvæmt stjórnarskránni. Hún getur verið skilyrt og háð einstaklingsbundnum aðstæðum en stendur ekki ein og sér í boði fyrir alla borgara. Sem dæmi mætti segja að blindir njóti þeirrar ívilnunar að nota hjálparhunda þrátt fyrir að lög skorti fyrir hundahaldi. Ástæðan er sú að samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar er ríkisvaldinu skylt að tryggja sjúkum og öryrkjum aðstoð. Slíkar ívilnanir eru meðal annars í skattalögum. Í lögum um fullnustu refsinga mætti líta á náðun sem ívilnun en að örðu leyti finnast þær ekki í lögunum þrátt fyrir að yfirvöld og jafnvel dómstólar virðast ranglega hafa litið svo á. Hvernig breyta stjórnvöld réttindum í ívilnun? Því má vel halda fram að íslenskum stjórnvöldum sé tamt að tryggja vald sitt yfir borgurum með því að dulbúa réttindi þeirra sem ívilnanir. Þetta á víða við en er sérstaklega áberandi í fangelsiskerfinu og löggjöf þess. Aðferðin er sáraeinföld og felst í að nota orðið „heimild“ í stað orðsins „skylda“. Með þessu móti er hlutunum snúið við og fangi þarf að færa góð rök fyrir því að hann eigi að njóta réttinda í stað þess að fangelsisyfirvöld rökstyðji hvers vegna hann eigi ekki að njóta þeirra. Reynslulausn Reynslulausn, dagsleyfi, nám- vinna og starfsþjálfun fyrir utan fangelsi o.fl. eru á meðal þeirra réttinda fanga sem tengjast nálægð við frjálsa samfélagið. Svipuð sjónarmið eiga við í öllum tilvikum en til einföldunar verðu hér fjallað um reynslulausn sem að mínu viti er umdeildasta úrræðið en jafnframt einfaldast að draga fram skiljanlega umfjöllun um það. Lög um fullnustu refsinga er mjög íþyngjandi löggjöf sem hverfist um frelsissviptingu og eru því í beinni andstöðu við 67. gr. stjórnarskrárinnar. Lögin virka um leið á nær öll önnur mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Þar á meðal mælir 28. gr. laganna fyrir um heimild fyrir ríkisvaldið til að gera undantekningu frá 68. gr. stjórnarskrárinnar um varnir gegn pyntingum og ómannúðlegri meðferð. Í VIII. kafla laga um fullnustu refsinga er fjallað um reynslulausn. Þar segir að Fangelsismálstofnun geti ákveðið að veita reynslulausn og síðar rakið hvenær stofnunin geti heimilað slíkt. Það má í raun segja að 80. gr. laganna um skilyrði reynslulausnar og 82. gr. um skilorðsrof gefi tilefni til sérstakrar og sundurliðaðrar umfjöllunar en samandregið koma þar fram þrjár séríslenskar lagareglur sem eru í meira lagi vafasamar:
Lög um fullnustu refsinga mæla fyrir um heimild fyrir fangelsisyfirvöld til veitingar reynslulausnar. Lögin tala ekki um skyldu. Á þessum forsendum hafa yfirvöld nálgast öll réttindi fanga og rökstuðningur sem tengist reynslulausn er á þessa leiða:
Varðandi meginregluna um afplánun að fullu í fangelsi er rétt að benda á að hugtökin „afplánun“ og „fullnusta“ tákna ekki hið sama í skilningi laga um fullnustu refsinga. Nálgun fangelsisyfirvalda kann að byggja á ruglingi með hugtökin en það eitt og sér skýrir þó ekki meginregluhugmyndina. Fullnusta í fangelsi tilheyrir afplánunarhugtakinu en reynslulaus er einn þeirra þátta sem markar lok afplánunar. Áður hefur verið fjallað um þau umdeildu rök yfirvalda að reynslulausn sé ívilnun og óþarfi að ræða það hér. Rétt er að fjalla ítarlega um þetta í tengslum við 5. mgr. 82. gr. laga um fullnustu refsinga varðandi úrskurðarmál í kjölfar meintra rofa á skilyrðum reynslulausnar. Er reglur um reynslulausn undantekningareglur? Þegar fangelsisyfirvöld synja föngum um reynslulausn er nær undantekningarlaust byggt á eftirfarandi rökstuðningi: Við [mat á veitingu reynslulausnar]þarf að hafa í huga að reglur um reynslulausn eru undantekningarreglur sem sæta ströngum skilyrðum og eru undanþágur einungis veittar í alveg sérstökum tilvikum. Þessi skýring á reynslulausnarreglum sem undantekningu byggir líklega á sjónarmiðinu um að refsingu skuli afplána að fullu í fangelsi sem meginreglu. Að ofan voru sett fram röksemdir sem mæla gegn því að slík afplánun sé meginregla. Í eðli sínu byggja reglur um reynslulausn á meginreglu stjórnarskrár og skulu skýrðar með hliðsjón af henni frekar en sem þröngar undantekningar frá frelsissviptingu. Skýring fangelsisyfirvalda á reynslulausnar sem undantekningar er í algjöru ósamræmi við framkvæmd og tölulegar staðreyndir. Samkvæmt ársskýrslum Fangelsismálastofnunar, um áralanga framkvæmd, er raunveruleikinn sá að um 75% fanga er veitt reynslulausn en 25% ekki. Reglur um reynslulausn eru því ekki aðeins meginreglur í eðli sínu heldur einnig í framkvæmd. Engu að síður birtist andstæður rökstuðningur fangelsisyfirvalda enn og ávallt sem meginástæða synjunar. Meginreglan eða undantekningin um afplánun að fullu í fangelsi Hvergi er að finna ákvæði í íslenskum lögum sem vísa til meginreglu stjórnvalda um að refsing skuli afplánuð að fullu í fangelsi. Hér er því um að ræða álit eða skoðun fangelsisyfirvalda. Um þetta gilda lög um fullnustu refsinga sem í heild sinni lýsa hvernig fullnusta skal fara fram, innan sem utan fangelsa. Þar segir að fullnusta geti farið fram með ýmsum hætti án þess þó að skilgreina meginreglur, undantekningar eða ívilnanir. Rök fangelsisyfirvalda veikjast mjög þegar litið er til framkvæmdarinnar. Samkvæmt árskýrslu Fangelsismálastofnunar hafa einungis um 25% fanga afplánað refsingu sína að fullu á undanförnum árum. Næst á dagskrá Sú er ætlunin að vekja áhuga fólks um réttindi borgara almennt sem svo auðveldlega má íhuga í samanburði við réttindi fanga. Fangelsislöggjöfin, í eðli sínu, felur í sér afgerandi frávik frá flestum mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og um leið ákjósanlegan völl til rannsóknar á sjónarmiðum stjórnvald. Í framhaldi þessarar greinar er ætlunin að fjalla um tvö lagaákvæði í lögum um fullnustu refsinga sem eru líklega í besta falli skrítin: Annars vegar 5. mgr. 80. gr. sem segir: „Fanga, sem á mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er grunaður um refsiverðan verknað, verður að jafnaði ekki veitt reynslulausn, enda sé málið rekið með eðlilegum hætti og dráttur á því ekki af völdum fangans.“ Hins vegar 2. mgr. 82. gr. sem segir: „Að kröfu ákæranda getur þó dómstóll úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga[...]“. |
höfundarGuðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu bloggar, ásamt öðrum talsmönnum fanga, um málefni fanga og betrun. formadur@afstada.is pistlasafn
July 2023
|