Árið byrjaði fallega hjá okkur. Við héldum upp á 10 ára afmæli Afstöðu og voru veisluhöld í öllum fangelsum landsins. Fangelsin buðu upp á veitingar og Afstaða veitti nokkrum völdum aðilum viðurkenningar fyrir störf í þágu fanga.
Á áratugsafmæli Afstöðu má svo sannarlega segja að fangelsismálin hafi verið í brennidepli í þjóðfélagsumræðunni. Mikil vitundarvakning hefur orðið um hvort rétt sá að taka upp aðrar aðferðir en refsingu, líkt og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa gert með nálgun á betrun. Í desember átti Afstaða fund með allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis um nýtt frumvarp um fullnustu refsinga, sem innanríkisráðherra hefur lagt fram. Það er ekkert leyndarmál að við urðum fyrir mjög miklum vonbrigðum með frumvarpið og sjáum strax að ekki er vilji hjá ráðherra að feta í sömu spor og nágrannaþjóðirnar til þess að fækka brotarþolum á Íslandi heldur þvert á móti. Það kom virkilega á óvart enda bundum við miklar vonir við að nýr ráðherra væri tilbúinn til að feta nýjar slóðir. Það hlýtur að vera markmiðið til framtíðar að fækka brotarþolum og lækka kostnað og því verður að hugsa þennan málaflokk til langtíma en ekki aðeins eitt kjörtímabil í einu. Seint á þessu ári var stofnuð enn ein nefndin á vegum ráðuneytanna um geðheilbrigðismál fanga, sem á að koma með hugmyndir um breytingar. Enginn sérfræðingur er í nefndinni né fulltrúi notenda. Við reyndar könnumst vel við slíkt fyrirkomulag enda var ekki haft neitt samráð um nýja frumvarpið um fullnustu refsinga, hvorki við okkur fanga né þá fangaverði sem hafa starfað í þeim löndum þar sem markmiðið er betrun. SJÁ EINNIG: Grunn umræða um geðheilbrigði fanga. Þetta árið var í fyrsta heila árið sem Afstaða hélt úti heimasíðu þar sem reglulega birtast fréttir af málefnum fanga, sem er viðbót við facebook-síðu félagsins. Síðurnar hafa verið mjög svo vinsælar og jafnvel lesnar í tugþúsunda tali. Máttur samfélgasmiðla er mikill og vart viðhorfsbreytingar til málaflokksins eftir að við byrjuðum að fræða almenning um fangelsismál. Við munum halda því áfram með að markmiði að þekking muni leiða til jákvæðra kerfisbreytinga. Afstaða hefur aldrei áður átt eins marga fundi og í ár. Ótrúlegur fjöldi þingmanna kom á fund og einnig áttum við nokkra fundi með hinum ýmsu þingnefndum. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarstjórnarfulltrúar áttu einnig fundi með okkur á árinu sem er að líða. Þá mætti formaður Lögreglustjórafélagsins til okkar ásamt lögreglustjóranum á Höfuðborgarsvæðinu, þar sem rætt var um nýjar leiðir til að aðstoða einstaklinga af glæpabrautinni. Borgarstjórinn í Reykjavík ræddi við okkur og það gerðu einnig fulltrúar ýmsa félagasamtaka, eins og Rauða kross Íslands, Verndar og Hjálpræðishersins. Komið var á samstarfi við ýmis félög varðandi skaðaminnkun í fangelsum, fleiri atvinnutækifæra fyrir fanga og auðveldari aðgengi að námi fyrir fanga í fjarnámi. Undnfarið höfum við verið í samskiptum við Lögmannafélag Íslands, en við teljum mikilvægt að breytingar verði gerðar til að bakvaktarlisti lögmanna virki sem skildi, því í dag er óeðlilega staðið að úthlutun verjenda sem lögregla hefur milligöngu um í lang flestum tilfellum. Afstaða hefur kvartað yfir þessu til nánast allra sem að málinu koma, en samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið þá virðist ekki vera mikill áhugi til að breyta þessu ferli. Afstaða mun kynna nýja áætlun til þess að veita grunðum betra aðgengi að góðum lögmönnum á nýju ári ef, ekki verða gerðar breytingar á næstu vikum. Alþingi samþykkti einróma að fela ríkisstjórninni að fullgilda svo kallaðan OPCAT samning, sem er viðauki við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyndingum en hann hefur m.a. verið innleiddur af öllum Norðurlöndunum. Píratar lögðu málið tvívegis fram á Alþingi og eiga heiður skilinn fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Enn á þó eftir að útfæra hið innlenda eftirlit með stofnunum sem vista frelsissvipta, en við höfum góðar fyrirmyndir frá Norðurlöndunum auk þess sem erlent eftirlit verður með innlenda eftirlitinu. Barnakoti, sem er sérstök aðstaða fyrir börn fanga á Litla-Hrauni, var lokað um helgar seinnipart þessa árs og mótmæltum við því harðlega. Það voru því gleðifréttir þegar við fréttum að Alþingi hefði sett sérstaka fjárveitingu í að tryggja opnun Barnakots um helgar. Á árinu kom oft og iðulega í hlut Afstöðu að aðstoða fanga og aðstandendur, þrátt fyrir að lög geri ráð fyrir að Afstaða skipti sér ekki af einstökum málum. Þegar þessir aðilar geta ekki snúið sér neitt annað höfum við, og munum halda áfram, aðstoðað á allan þann hátt sem við höfum getu til. Upp komu dæmi þar sem frelsissviptir einstaklingar voru skildir eftir á götunni og yfirvöld bentu síðan hver á annan til að firra sig ábyrgð. Í slíkum tilvikum er hreinlega ekki hægt að líta undan. Afstaða lætur þess yfirleitt aldrei ónefnt að við stöndum fyrir betrun og okkar markmið er að fangelsiskerfið fari þær leiðir. Lykillinn að betrun er þrenns konar: menntun, starfsþjálfun og bætt tengls við fjölskyldu. Þetta eru þau atriði sem við höfum lagt áherslu á og vonum að á nýju ári verði enn frekar bættir möguleikar til að auka aðgengi að öllu námi, sérstaklega verknámi. Þá þarf að taka sérstaklega til skoðunar fjölskyldutengls og hvernig hægt er að auka samskipti fanga við fjölskyldu hans. Mikill fjöldi hefur aðstoðað okkur í baráttunni í ár, og þeim ber að þakka innilega fyrir. Á nýju ári ætlum við í Afstöðu að halda áfram að þrýsta á að komið verði á betrun í fangelsunum, en megin verkefni okkar verður að þessu sinni að fá sveitarfélög landsins til að axla ábyrgð á farsælli endurkomu dómþola út í samfélagið að nýju. Því miður eru ótal dæmi um að föngum sem sleppt er út, séu komnir aftur inn í fangelsin innan nokkura vikna eða mánaða - og úr þessu er hægt að draga verulega ef sveitarfélögin koma að þessari vinnu eins og sveitarfélögin á hinum Norðurlöndunum hafa gert með ótvíræðum árangri. Ekki er nóg að geyma einstakling í ákveðinn tíma og ætlast síðan til þess að hann verði betri þegar hann losnar. Það þarf að gefa honum tækifæri til að setja sér markmið og vinna með honum markvisst í að ná þessum markmiðum. Því spyrjum við á nýju ári: FRELSI. HVAÐ SVO? Guðmundur Ingi Þóroddsson formadur@afstada.is ![]() Á hátíðarstundum er sagt að Íslendingar séu bókaþjóð. Víst er að fjöldi bóka kemur út fyrir jólin og þá hefst mikil samkeppni um að koma þeim inn á fólk – ýmist til eignar eða lestrar. Sumar eru góðar og aðrar betri – enn aðrar frábærar. Svo eru inn á milli miðlungsbækur og afleitar bækur. Áberandi er að flestar bækur fá góða dóma og sumar hverjar framúrskarandi – það er líka ískyggilegt því oft hafa þær bækur sem fengu verstu dómana reynst vera þær bestu og vinsælustu. En það hressir mörlandann líka að vita að höfundar skersins góða eru flottir pennar – líklega þeir „stórustu“ í heimi. Ekki dregur það heldur úr ánægjunni að heyra af þýðingum á íslenskum glæpasögum yfir á erlend tungumál og þær virðast gera jafn mikla lukku í hinu fjarlæga útlandi og í bólgna túnfætinum heima. Glæpasögurnar renna út og hjarðeðlið kemur hvergi skýrar fram: allir vilja lesa það sama og kannski til að geta spurt í næsta jólaboði: „Ertu búin/n að lesa....? Rosaspenna – og fléttan maður, já fléttan snilldin ein,“ ... og allt það. „Hans besta bók til þessa... og hún hefur ekki skrifað glæsilegri bók,“ og spekingssvipurinn rís upp af andlitinu eins og kæfandi eiturský og þú sérð enga undankomuleið nema einna helst neyðarlínuna – en þú átt ekki inneign og ert þess vegna að líða út af. En svo er það nú alltaf spurning dagsins hver muni eftir metsölubókinni frá því fyrir fimm árum (eða í fyrra?) og hvort hún sé komin í leðurband upp í skáp. Eða á hundraðkall í Góða hirðinum? Kannski skiptir það nefnilega ekki máli. Hún var góð meðan hún var ný og ólesin. Lesin og gömul var hún eins og blautt púður. Hún var nefnilega einlestra og átti að vera það. Það er líðandi stund sem er lifandi stund. Manneskjan er í það minnsta eilíf í því tilliti að hún lifir í hinu eilífa andartaki – hinni eilífu andrá meðan hún sjálf dregur andann. En hvort hún lifi þá hið eilífa andartak rennur á skeið út úr brjósti hennar er önnur saga. Lífið er auðvitað saga. Fullt af sögum andartakanna. Hver maður er saga út af fyrir sig og aðallega gefin út af honum sjálfum. Ýmist innbundin eða óbundin. Bindin eitt eða tvö, kannski fleiri. Og söguþráðurinn margslunginn. En bókin sem geymir þá sögu er ekki einlestra heldur verður lesin aftur og aftur. Fyrst og fremst af þér og þínum. En vita máttu að margir aðrir glugga í hana – og dæma. Saga er leið á milli fólks. Sumir segja þá leið stutta meðan aðrir segja hana vera flókna. Samskipti fólks eru sjaldan einföld. Sennilega stóð það aldrei til miðað við hvernig manneskjan er innréttuð – líklega og sem betur fer enginn innanhússarkitekt þar að störfum. Heldur frelsisþráin. Svo er það Biblían. Hana má nefna á jólum án þess að allt verði vitlaust í sálarskuggaskotum þeirra sem fjandskapast dag og nótt út í trú og kristni í nafni umburðarlyndis og mannréttinda. Hún geymir jólasöguna – og gætið ykkar nú! Það er útbreiddasta saga allra tíma. Sú forna saga sem jólin segja er uppfull af hvers kyns táknum. Eitt þeirra og það mikilvægasta er sjálft barnið í jötunni en það er tákn sem felur margt í sér: frelsi, vöxt, þroska, framtíð, umhyggju og kærleika. Þannig mætti lengi telja. Frelsið er kært þeim sem í fangelsum eru. Aldrei kærar því þau þekkja muninn á frelsi og ófrelsi. Þess vegna eiga þau sterka og bjarta von um framtíð. Þar getur þetta litla barn sem forðum fæddist í Betlehem verið eins konar leiðarstjarna. Því þau sem í fangelsi eru átta sig á því að þegar stigið er út í frelsið í litlum skrefum þá er allt viðkvæmara en áður. Fótur fangans og iljar viðkvæmar sem barnsins fótur. Ekki harður fótur og þykkur af reynslusiggi enda þótt í fangelsi hafi verið. Margt getur verið sem salt í sár þegar sá fótur stígur á ný út í samfélag þeirra sem telja sig vera flekklaus: fordómar, hryssingsleg orð og fýldur spurnar- og hæðnissvipur. Fangelsi er reynsla. Dýrkeypt reynsla sem engum dettur í hug að kaupa né heldur þiggja þótt gefin væri. Fangavist styrkir hins vegar óumbeðið tilfinningu manna fyrir því hve frelsið er dýrmætt. Styrkir með sérstökum hætti vitund mannsins um framtíðina þar sem frelsið býr. Allir eiga sér framtíð. Jól benda á framtíð hvers manns í heiminum sem jötubarnið vill leiða og vísa veg. Það er ekki alltaf dans á rósum og barnið í jötunni var snemma ofsótt og mætti romsa út úr sér nöfnum keisara og herskárra manna frá fornri tíð og úr samtíma okkar sem vilja boðskap þess feigan. Þess gerist ekki þörf því meistarinn frá Nasaret stendur ætíð slíkum smámennum framar enda þau ekki nema daufur neisti sem hrekkur út í myrkrið og slokknar svo meðan hann er ljós heimsins. Hann varpar ljósi sínu á veg okkar þegar gengið er út í frelsið. Gleðileg jól og farsælt komandi ár! Hreinn S. Hákonarson, fangaprestur þjóðkirkjunnar Bæjarstjórnin í Grundarfirði hefur skrifað fjárlaganefnd erindi þar sem hún óttast að Kvíabryggju á Snæfellsnesi verði lokað vegna niðurskurðar í fjárveitingum til fangelsismála. Tilefni óttans eru ummæli forstjóra fangelsismálastofnunar þess efnis að nauðsynlegt sé að skera niður í rekstri, verði frumvarp til fjárlaga að lögum í óbreyttri mynd. Bæjarstjórnin hoppar þannig á vagninn, og tekur áskorun forstjórans, um að setja þrýsting á ríkisvaldið um auknar fjárveitingar til reksturs fangelsanna.
Árangursrík stefna Kvíabryggja var lengi vel eina opna fangelsið hér á landi og þar var haldið úti blómlegri atvinnustarfsemi sem hver einasti vistmaður hafði atvinnu af, mest við sjávarútveg. Margvíslegur ávinningur var af þessari nálgun; kennt var verklag og agi, sem fylgir þátttöku í atvinnulífi, auk þess sem flestir náðu að safna sér smá sjóði sem þeir tóku með sér út í lífið að lokinni afplánun. Í nágrannalöndunum, sem við gjarnnan berum okkur saman við, hefur þessari nálgun verið beitt í vaxandi mæli enda árangurinn af henni vel mælanlegur. Einstaklingar sem viðhalda samfélagslegum tengslum meðan á afplánun stendur, meðal annars með þátttöku í almennu atvinnulífi, virðast líklegri til að geta fótað sig betur út í samfélaginu að lokinni afplánun dóms. SJÁ EINNIG: um norska stefnumótun - á íslensku Fleiri betrunarhús Á Kvíabryggju hafa hlutirnir hins vegar þróast þannig að þar er nú vart neina vinnu að fá og enginn vilji virðist til þess að tengja atvinnulífið í grennd við starfsemina. Á næstu árum hefði þurft að fjölga verulega fjölda opinna úrræða hér á landi, sé ætlunin að ná sambærilegum árangri og okkar næstu nágrannar hafa verið að ná við að byggja upp einstaklinga til jákvæðrar samfélagsþátttöku eftir afplánun. Slík betrunarhús þurfa hins vegar að vera staðsett þar sem sveitarfélög og atvinnulífið er tilbúið til að koma að málum, sem virkir þátttakendur í að byggja upp starfsemi sem undirbýr einstaklingana, sem þar eru í vist, fyrir þátttöku í samfélaginu. Staðsetning betrunarhúsa þarf sem sagt að taka mið af vilja samfélagsins í grennd til að taka virkan þátt, í samvinnu við ríkisvaldið, í þeirri starfsemi sem þar fer fram. Ábyrgð sveitarfélaga Nú hefur bæjarstjórnin í Grundarfirði stigið fram með kröfu á ríkisvaldið um aukið fé til rekstursins á Kvíabryggju, en við spyrjum: hvað er samfélagið á Grundarfirði tilbúið að leggja af mörkum til að koma starfseminni þar í það horf sem áður var? Þegar það liggur fyrir væri fyrst kominn grundvöllur til að ræða framtíð Kvíabryggju. ritstjorn@afstada.is Eftir rétt rúmlega ár verður fyrsta lokaða fangelsið á Grænlandi tekið í notkun, en hingað til hafa þeir sem dvalið hafa í lokuðum fangelsum verið sendir til Danmerkur í afplánun. Í dag eru hins vegar rekin sex fangelsi á Grænlandi sem öll eru opin og flestir vistmenn sinna vinnu utan fangelsis. "Grænlenskt réttarfar leggur ekki áherslu á refsingar heldur á stuðning og aðstoð við brotamanninn", sagði Hans Jørgen Engbo, fangelsismálastjóri á Grænlandi í viðtali sem sýnt var í fréttum RÚV í haust. Það er í samræmi við skilning almennings þar, en skv. skoðanakönnun telja 77% aðspurðra tilgang dóma eigi að vera aðstoð og stuðningur við dómþola – ekki hefnd samfélagsins. SJÁ EINNIG: upplýsingabækling Betrunarstofu Grænlands Nýja fangelsið mun rúma 76 einstaklinga, en aðeins 40 rými verða fyrir lokaða hluta fangelsisins – hin 36 verða opin rými. Það þýðir að aðeins rúm tuttugu prósent af fangelsisrýmum á Grænlandi verða í lokuðu fangelsi, en lang stærsti hlutinn verður áfram opin fangelsi með áherslu á að endurhæfingu – og að einstaklingurinn verði áfram hluti af samfélaginu. Með það fyrir augum er hugmyndafræði nýja fangelsisins skýr: hönnunin á að bjóða upp á að upplifa ólíka dagsbirtu sem kallast á við náttúruna – snjó, ís, kletta, mosa, himinblámann, sólina, dag og nótt, fugla og annað dýralíf – með fjölbreyttri uppröðun bygginga. Þá eiga panorama lagaðir gluggar í sameiginlegu rými að veita óhindrað útsýni yfir náttúru og haf. Hugmyndafræðin er í ætt við það sem þekkist í Noregi þar sem lögð er áhersla á tengsl/snertingu einstaklingsins við náttúruna og að byggja upp brotna einstaklinga í gegnum menntun og vinnu. Byggt á Hólmsheiði Á næsta ári verður tekið í notkun fangelsi á Hólmsheiði sem mun rúma 56 einstaklinga, en fyrir eru rekin fimm fangelsi á Íslandi. Þegar það kemst í gagnið verða einungis rúm tuttugu prósent rýma á Íslandi í opnum fangelsum, en mikill meirihluti verður áfram í lokuðum fangelsum. Vandfundin er hugmyndafræði að baki byggingunni á Hólmsheiði, en ljóst að hún verður hálf niðurgrafin með borulegum gluggum sem erfitt verður að horfa út um og litlum görðum sem verða umluktir veggjum. Tillaga Ooiio, sem ekki hlaut hljómgrunn dómnefndar, hefur hins vegar vakið verðskuldaða athygli dálkahöfundar The Independent fyrir frumleika og samspil við birtu og náttúru.
SJÁ: How to build better prisons: New designs and a new look at their purpose Löngu er sannað að einangrunarvist hefur skaðleg áhrif á fólk en kannski færrum er ljóst hvernig löng vist í húsi, sem gefur litla möguleika á að nota skynfærin, eyðileggur t.d. fjarlægðarskyn fólks. Þetta er nokkuð sem haft er að leiðarljósi í nágrannalöndunum við hönnun mannvirkja sem þessara, þar sem tengsl við náttúruna eru höfð að leiðarljósi í lokuðum fangelsum – auk áherslu á að fjölga opnari fangelsum til að auka virkni einstaklinga og undirbúa þá undir þátttöku í samfélaginu að nýju. En við virðumst ekki ginkeypt fyrir erlendu áliti, jafnvel þó það byggi á rannsóknum, reynslu og þekkingu. Eftir sitjum við með ónýtt fangelsiskerfi sem skilar af sér fólki sem ófært er til þátttöku í samfélaginu, enda hvorki fengið til þess stuðning meðan á afplánun varir – né eftir að henni lýkur. ritstjorn@afstada.is Hugtakið betrun getur verið flókið, en því höfum við haldið á lofti – og að það sé forsenda fyrir því að einstaklingur sem hefur hlotið dóm geti orðið að nýtum samfélagsþegn, en verði ekki hornreka í samfélaginu. Að því verki þurfa margir að koma og má segja að sé á ábyrgð samfélagsins sem heild.
Í mínum huga er alveg ljóst að þeir sem hafa lent í fangelsi þurfa aðstoð til að koma undir sig fótunum að nýju. Ef það er ekkert húsnæði til að fara í, framfærsla og framtíðarsýn, þar sem markmiðið er að einstaklingarnir verði nýtir samfélagsþegnar, þá lendum við í vítahring og þetta verður samfélgslegt vandamál. Hvert erum við eiginlega komin ef allir atvinnurekendur ætla að gera sakavottorð sem skilyrði fyrir því hvort fólk telst hæft til að sinna tilteknum störfum? Sigurjón Birgisson, fv. formaður fangavarðafélagsins kemur að kjarna málsins í viðtali við RÚV: „Í fangelsiskerfinu er gríðarlegur fjöldi manna, sem vissulega hefur misstigið sig á lífsleiðinni, en þeir eru mörgum góðum kostum gæddir og hæfileikum, en þeir fá bara engin tækifæri til þess að sýna það. Og það eina sem gerist að þeir fara út og koma aftur. Með tilheyrandi kostnaði fyrir okkur öll.” SJÁ EINNIG: Annað tækifæri fyrir alla? Það er því með hreinum ólíkindum að verða vitni af forneskjulegum viðhorfum þar sem gera á einstaklinga hornreka í samfélaginu. Ekki er nóg að líta bara svo á að tilgangur fangavistar eigi að vera betrun ef samfélagið er síðan ekki tilbúið til að samþykkja einstaklinginn að afplánun lokinni. Hvernig getum við ætlast til þess að einstaklingur sem hefur setið af sér dóm geti breyst og betrast ef að samfélag manna mun aldrei taka hann í sátt að nýju – ALDREI. Staðreyndin er sú að ef við útskúfum fólki er hættara við að það leiðist aftur á sömu braut. Er ekki eðlilegri nálgun að gefa fólki tækifæri á að sanna sig og verða virkir samfélagsþegnar? Ég vona að það fyrirtæki sem nú er til umræðu sjái að sér og sýni samfélagslega ábyrgð - með því að taka þátt í að gefa einstaklingum, sem hafa misstigið sig í lífinu, tækifæri til að fóta sig að nýju. Í því felst nefnilega samfélagslegur ávinningur - okkur öllum til hagsbóta. formadur@afstada.is |
höfundarGuðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu bloggar, ásamt öðrum talsmönnum fanga, um málefni fanga og betrun. formadur@afstada.is pistlasafn
July 2023
|