![]() Á miðvikudaginn sl. mælti Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður þingflokks Pírata fyrir tillögu til þingsályktunar um fullgildingu OPCAT, sem er viðbótarsamningur við samning Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyndingum og vanvirðandi meðferð frelsissviptra. Í ræðu Helga Hrafns segir meðal annars: "Efni bókunarinnar lýtur fyrst og fremst að stofnun og starfsemi innlendra og erlendra eftirlitsaðila og skuldbindingum aðildarríkja þar að lútandi. Samkvæmt bókuninni er hinni alþjóðlegu nefnd falið að heimsækja með reglubundnum hætti þær stofnanir í aðildarríkjum sem vista frelsissvipta einstaklinga og gefa ríkjum tilmæli og ábendingar varðandi vernd gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá er nefndinni einnig falið að vera ríkjum til ráðgjafar um innlend eftirlitskerfi, stofnun þeirra og starfsemi, sem og að eiga samskipti við sjálfa eftirlitsaðila innan lands, veita ráðgjöf, þjálfun o.fl. Hins vegar er einnig fjallað um innlent eftirlitskerfi sem aðildarríkjum er ætlað að koma á fót, innan árs frá fullgildingu bókunarinnar. Það sem innlenda eftirlitskerfið þarf að geta beitt eru reglulegar kannanir á meðferð og aðbúnaði frelsissviptra einstaklinga með það fyrir augum að styrkja, ef nauðsyn krefur, vernd þeirra gegn pyndingum og annarri grimmilegri og vanvirðandi meðferð og tilmæli og ábendingar til stjórnvalda um það sem betur má fara, bæði hvað varðar framkvæmd og lagasetningu. [...] Virðulegi forseti, eins og ég nefndi hér fyrr í ræðu minni var OPCAT bókunin undirrituð fyrir Íslands hönd 23. september 2003, fyrir 11 árum. Í þeirri undirritun felst viljayfirlýsing okkar Íslendinga og því er ekki um pólitíkst deiluefni að ræða. Við erum eða hljótum að vera sammála um þetta mál. Við þurfum bara að koma því í verk að fullgilda bókuninna og koma eftirlitinu í gang. Flest þeirra ríkja sem við berum okkur saman við hafa fullgilt bókunina, þar á meðal öll Norðurlöndin, að Finnlandi undanskildu. Ýmsir hafa orðið til að þrýsta á íslensk stjórnvöld um fullgildingu. Í athugasemdum nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum, frá 8. júlí 2008, lýsir nefndin áhyggjum af því að engu lögformlegu eftirliti hafi verið komið á fót til að fylgjast með stofnunum sem vista frelsissvipta einstaklinga og hvetur nefndin til þess að valfrjálsa bókunin verði fullgilt eins fljótt og auðið er. Í skýrslu nefndar ráðherraráðs Evrópu um pyndingar til íslenskra stjórnvalda sem kom út í mars 2013, er mælst til þess að Ísland fullgildi bókunina og komi á sjálfstæðu eftirlitskerfi. Er þetta áréttað í skýrslunni sem sérstakt forgangsatriði. Síðast enn ekki síst hefur Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun fanga, ítrekað hvatt til þess að viðaukinn verði fullgiltur til að tryggja megi gott og sjálfstætt eftirlit með stofnunum sem vista frelsissvipta einstaklinga." Ef af fullgildingunni verður færist Ísland aðeins nær hinum siðmenntuðu þjóðum, sem eru gjarnan notaðar sem viðmið á hátíðarstundum. Þá er vonandi að næst verði fjarlægður fyrirvari Íslands við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna - sem gerir íslenskum yfirvöldum kleift að vista börn yngri en 18 ára í fangelsum með fullorðnum föngum. Til hamingju Ísland! ritstjorn@afstada.is |
höfundarGuðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu bloggar, ásamt öðrum talsmönnum fanga, um málefni fanga og betrun. formadur@afstada.is pistlasafn
July 2023
|