Afstada.is
  • Forsíða
  • Um felagid
  • Blogg
  • Rannsoknir
  • Stjornsysla
  • Stefnumotun

Nýtt fangelsi í Nuuk

9/12/2015

Comments

 
Picture
Í fangelsinu í Nuuk á Grænlandi, sem tekið verður í notkun árið 2017, er lögð áhersla á tengsl við náttúruna.
Eftir rétt rúmlega ár verður fyrsta lokaða fangelsið á Grænlandi tekið í notkun, en hingað til hafa þeir sem dvalið hafa í lokuðum fangelsum verið sendir til Danmerkur í afplánun. Í dag eru hins vegar rekin sex fangelsi á Grænlandi sem öll eru opin og flestir vistmenn sinna vinnu utan fangelsis.
 
"Grænlenskt réttarfar leggur ekki áherslu á refsingar heldur á stuðning og aðstoð við brotamanninn", sagði Hans Jørgen Engbo, fangelsismálastjóri á Grænlandi í viðtali sem sýnt var í fréttum RÚV í haust. Það er í samræmi við skilning almennings þar, en skv. skoðanakönnun telja 77% aðspurðra tilgang dóma eigi að vera aðstoð og stuðningur við dómþola – ekki hefnd samfélagsins.

SJÁ EINNIG: upplýsingabækling Betrunarstofu Grænlands

Nýja fangelsið mun rúma 76 einstaklinga, en aðeins 40 rými verða fyrir lokaða hluta fangelsisins – hin 36 verða opin rými. Það þýðir að aðeins rúm tuttugu prósent af fangelsisrýmum á Grænlandi verða í lokuðu fangelsi, en lang stærsti hlutinn verður áfram opin fangelsi með áherslu á að endurhæfingu – og að einstaklingurinn verði áfram hluti af samfélaginu.
 
Með það fyrir augum er hugmyndafræði nýja fangelsisins skýr: hönnunin á að bjóða upp á að upplifa ólíka dagsbirtu sem kallast á við náttúruna – snjó, ís, kletta, mosa, himinblámann, sólina, dag og nótt, fugla og annað dýralíf – með fjölbreyttri uppröðun bygginga. Þá eiga panorama lagaðir gluggar í sameiginlegu rými að veita óhindrað útsýni yfir náttúru og haf.
 
Hugmyndafræðin er í ætt við það sem þekkist í Noregi þar sem lögð er áhersla á tengsl/snertingu einstaklingsins við náttúruna og að byggja upp brotna einstaklinga í gegnum menntun og vinnu.
Byggt á Hólmsheiði​
​Á næsta ári verður tekið í notkun fangelsi á Hólmsheiði sem mun rúma 56 einstaklinga, en fyrir eru rekin fimm fangelsi á Íslandi. Þegar það kemst í gagnið verða einungis rúm tuttugu prósent rýma á Íslandi í opnum fangelsum, en mikill meirihluti verður áfram í lokuðum fangelsum.
Picture
Fangelsið á Hólmsheiði sem tekið verður í notkun vorið 2016
Vandfundin er hugmyndafræði að baki byggingunni á Hólmsheiði, en ljóst að hún verður hálf niðurgrafin með borulegum gluggum sem erfitt verður að horfa út um og litlum görðum sem verða umluktir veggjum. Tillaga Ooiio, sem ekki hlaut hljómgrunn dómnefndar, hefur hins vegar vakið verðskuldaða athygli dálkahöfundar The Independent fyrir frumleika og samspil við birtu og náttúru.

SJÁ: How to build better prisons: New designs and a new look at their purpose

Löngu er sannað að einangrunarvist hefur skaðleg áhrif á fólk en kannski færrum er ljóst hvernig löng vist í húsi, sem gefur litla möguleika á að nota skynfærin, eyðileggur t.d. fjarlægðarskyn fólks. Þetta er nokkuð sem haft er að leiðarljósi í nágrannalöndunum við hönnun mannvirkja sem þessara, þar sem tengsl við náttúruna eru höfð að leiðarljósi í lokuðum fangelsum – auk áherslu á að fjölga opnari fangelsum til að auka virkni einstaklinga og undirbúa þá undir þátttöku í samfélaginu að nýju.

En við virðumst ekki ginkeypt fyrir erlendu áliti, jafnvel þó það byggi á rannsóknum, reynslu og þekkingu. Eftir sitjum við með ónýtt fangelsiskerfi sem skilar af sér fólki sem ófært er til þátttöku í samfélaginu, enda hvorki fengið til þess stuðning meðan á afplánun varir – né eftir að henni lýkur.

ritstjorn@afstada.is
Comments
    Picture

    höfundar

    Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu bloggar, ásamt öðrum talsmönnum fanga,  um málefni fanga og betrun. formadur@afstada.is

    pistlasafn

    April 2020
    March 2020
    December 2019
    December 2018
    October 2018
    May 2018
    April 2018
    March 2018
    February 2018
    October 2017
    September 2017
    August 2017
    July 2017
    April 2017
    December 2016
    November 2016
    October 2016
    August 2016
    July 2016
    May 2016
    April 2016
    March 2016
    February 2016
    January 2016
    December 2015
    November 2015
    September 2015
    August 2015
    July 2015
    March 2015
    February 2015
    January 2015
    December 2014
    November 2014

    RSS Feed

AFSTAÐA Icelandic advocacy group for better prison policies and betterment.
© COPYRIGHT AFSTAÐA 2020
  • Forsíða
  • Um felagid
  • Blogg
  • Rannsoknir
  • Stjornsysla
  • Stefnumotun