![]() Í dag birtist hér á síðunni greinin Mannúðar- & betrunarstefna eftir talsmann fanga á Litla-Hrauni. Þar er fjallað um þátt finnska ríkissjónvarpsins (YLE) The Norden, þar sem James Conway fv. fangelsisstjóra í Attica fangelsinu í New York heimsækir fjögur fangelsi á Norðurlöndunum. Þátturinn hefur vakið nokkra athygli enda opinberast í honum hversu gjörólík sjónarmið eru ríkjandi í Bandaríkjunum varðandi hlutverk fangelsisvistar, samanborið við hið norræna sjónarhorn. Fyrirlitningin opinberaðist vel þegar Conway sagðist ekki eyða tíma í hafa áhyggjur af velferð fanga. Þeir voru í hans augum ekki fólk, heldur skepnur: „Það voru þínar gjörðir sem komu þér hingað“ sagði hann, „hverjum er ekki sama hvernig þeir hafa það“. Heimsókn fangelsisstjórans fyrrverandi í Halden öryggisfangelsið í Noregi, sem tekið var í notkun árið 2011, var síðasta af fjórum fangelsum sem hann heimsótti. Þar velti hann fyrir sér hvers vegna umhverfið væri umvafið skógi og fjallasýn – og var svarað um hæl, að það væri hluti af hugmyndafræðinni: að halda náttúrunni eins ósnortinni og hægt væri. Í hans huga var um að ræða mikla öryggisógn sem byði upp á flótta úr fangelsinu, sem hann spáði að yrðu margir. Reyndin er önnur! Ég veit ekki til þess að neinn hafi flúið frá Halden og endurkomur í Noregi eru fátíðar samanborið við Bandaríkin. Það að einstaklingarnir séu aðstoðaðir við að koma undir sig fótunum á ný er sennilega stór hluti af þeirri skýringu. Að koma fram við fólk eins og skepnu er ekki leiðin til að fækka endurkomum í fangelsi heldur hitt, að koma fram við fólk af reisn og mannúð – líkt og gert er í norræna módelinu. Að lokum hvet ég íslenska ríkissjónvarpið til að taka þennan áhugaverða þátt til sýningar, rétt eins og allar aðrar ríkisstöðvar á Norðurlöndunum hafa gert. Hann er gott innlegg í uppbyggilega umræðu. formadur@afstada.is |
höfundarGuðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu bloggar, ásamt öðrum talsmönnum fanga, um málefni fanga og betrun. formadur@afstada.is pistlasafn
October 2022
|